Dagsetning
2. desember
kl. 14:00-15:00
Skipuleggjendur
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

Messa tileinkuð minningu Haralds Níelssonar

Fríkirkjan í Reykjavík , Höfuðborgarsvæðið

Árið 1918 mynduðust langar raðir fyrir utan Fríkirkjuna til að heyra predikanir sr. Haralds Níelssonar og hann var  á þönum milli veiks fólks í Reykjavík að hugga og styrkja í spönsku veikinni sem geysaði á þessum tíma. 

Þann 1.desember er hálf önnur öld frá fæðingu sr. Haralds Níelssonar og verður messa tileinkuð minningu hans í Fríkirkjunni sunnudaginn 2.desember kl 14:00 og mun  María Ellingsen langafabarn hans flytja þar predikun eftir hann. 

Haraldur ólst upp í trúrækni á heimili foreldra sinna á Grímstöðum á Mýrum og var trúr þeim trúararfi alla tíð síðan. Hann stundaði skólanám undir handarjaðri Hallgríms biskups Sveinssonar og varð honum mjög handgenginn. Haraldur var mjög samviskusamur og afburða nemandi. Lauk hann hæsta guðfræðiprófi frá guðfræðideild Hafnarháskóla 1897 sem sögur fara af og var hann fengið til þýðingarstarfa í kjölfar þess. Árið 1904 kynntist hann sálarrannsóknum og varð brátt sannfærður spíritisti. Hann leit á þessar stefnur sem besta vopn kirkjunnar í baráttunni gegn efnishyggju og trúleysi. Árið 1909 var hann kosinn prestur í Reykjavík og gegndi jafnframt prestsþjónustu við holdsveikraspítalann í Laugarnesi. Þótt starfsvettvangur hans yrði í Háskóla Íslands leit stór hluti Reykvíkinga á hann sem sinn prest.

Haraldur Níelsson var prófessor í guðfræði við Háskóla Íslands frá stofnun hans árið 1911 og háskólarektor í annað sinn þegar hann lést vorið 1928. Hann var einn helsti boðberi frjálslyndu guðfræðinnar á Íslandi á síðustu öld og einn áhrifamesti kennari guðfræðideildarinnar á sinni tíð og líklega var hann einn mesti predikari sem íslensk kirkja hefur átt fyrr og síðar. Einnig er hans minnst fyrir það afrek sem hann vann með þýðingu Gamlatestamentisins úr frumálinu sem fyrst kom úr árið 1912. Var það mat margra að sú þýðing bæri af öllum öðrum og að ekki yrði betur gert. Segja má að það hafi sannast því að í nýrri útgáfu frá seinustu aldamótum er mikið enn af texta Haralds.

19. desember 1918 stofnaði hann ásamt vini sínum og samstarfsmanni Einar H. Kvaran rithöfundi Sálarrannsóknarfélag Íslands og var varaformaður þess til dauðadags 1928. Félagið var stofnað til að rannsaka hvort að sál mannsins lifi af líkamsdauðann en einnig vildu forsvarsmenn félagsins að það gæfi fólki ljós og von í þeirri sorg sem ríkti í Reykjavík í kjölfar spænsku veikinnar. 

Efst á baugi