Dagsetning
8.-10. júní
Aðgangseyrir
Nei
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

NORDIA2018

TM-höllin / Íþróttamiðstöðin Mýrin, Höfuðborgarsvæðið

Danakonungur hverfur af íslenskum seðlum

Fyrstu sjáanlegu áhrif þess á íslenska seðlaútgáfu að Ísland hafði fengið fullveldi voru þau helst að árið 1920 gaf Íslandsbanki út 5 og 10 krónu seðla þar sem búið var að fjarlægja ábúðarmikla myndina af Danakonungi, og í staðinn komu fallegar landslagsmyndir af Geysi og Heklu. Má því segja að Íslandsbankamenn hafi verið þjóðernislegri en kollegar þeirra í Landsbanka Íslands, og var þó annar bankastjóri Íslandsbanka á þeim tíma danskur maður, H. Tofte að nafni, en hinn var Sighvatur Bjarnason.  Landsbanki Íslands fylgdi hins vegar ekki í fótspor samkeppnisaðila síns að þessu leyti fyrr en eftir 1930.

Þjóðlegri í samræmi við kröfur tímans

Saga opinbers gjaldmiðils hér á landi hófst árið 1778, 140 árum en Ísland varð fullvalda ríki. Þá voru lögfestir danskir kúrantseðlar sem voru með íslenskum texta á bakhliðinni. Árið 1885 var landstjórninni heimilað með lögum að gefa út íslenska peningaseðla í nafni Landssjóðs fyrir allt að hálfri milljón króna, og skyldi það verða fyrsta stofnfé Landsbanka Íslands. Landssjóður hélt áfram seðlaútgáfu og var einn um hituna þangað til Íslandsbanki var stofnaður árið 1904, en hann hóf útgáfu seðla skömmu síðar og hélt því áfram um tuttugu ára skeið. Á árunum 1927 og 1928 setti Alþingi löggjöf um Landsbanka Íslands, þar sem honum var fengið hlutverk seðlabanka og einkaréttur til seðlaútgáfu. Sú breyting var gerð á útliti annarrar seðla-raðar Landsbanka Íslands að þeir voru mun þjóðlegri í útliti í samræmi við kröfur tímans.

Gjaldmiðlar fullveldistímans, opinberir og einka

Á Fullveldissýningunni, sem er hluti NORDIA 2018 frímerkjasýningarinnar í TM-Höllinni í Garðabæ næstu helgi, verða sýndir allir íslenskir peningaseðlar frá 1918-2018, hlutabréf og skjöl Íslandsbanka, kaupfélagsávísanir, vöruávísanir einkaaðila, skömmtunarseðlar, ávísanir, víxlar, hlutabréf, tunnumerki, gjaldmiðlar bandaríska hersins á Íslandi, brauðpeningar, vörurpeningar, gangmynt, auk debetkorta, kreditkorta og bankakorta af ýmsu tagi. Sýningin spannar þannig bæði opinbera gjaldmiðla á Íslandi á tímum fullveldisins og hina fjölbreyttu flóru einkagjaldmiðla sem komu víða við sögu lands og þjóðar á umræddu tímabili. Það er sannarlega mikill fengur fyrir áhugafólk um sögu, menningu og fagurfræði að eiga kost á að berja augum þessi fágætu og verðmætu söfn.

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, mun setja norrænu safnarasýninguna NORDIA 2018 í TM-Höllinni (íþróttamiðstöðinni Mýrinni) í  Garðabæ föstudaginn 8. júní næst komandi. Reiknað er með fjölmörgum erlendum gestum til landsins vegna sýningarinnar.  Forseti Íslands er verndari sýningarinar.