Landið mitt - frumflutningur

Landið mitt - frumflutningur

Í mars auglýsti afmælisnefnd aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands, í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, eftir tillögum um nýtt kórlag í tilefni aldarafmælis fullveldis. Kallað var eftir frumsömdu og óbirtu ljóði og lagi fyrir blandaðan kór og skyldi lagið hæfa tilefninu og henta vel til söngs.

Mikill áhugi var fyrir samkeppninni og bárust nefndinni 60 tillögur. Dómnefndina skipuðu Árni Heimir Ingólfsson, formaður dómnefndar, fulltrúi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Magnús Ragnarsson, fulltrúi Tónskáldafélags Íslands, Sigurlín Bjarney Gísladóttir, fulltrúi Rithöfundasambands Íslands, Björgvin Halldórsson, fulltrúi Félags tónskálda og textahöfunda, Hlín Pétursdóttir Behrens, fulltrúi Félags íslenskra hljómlistarmanna, og Bergljót Haraldsdóttir, fulltrúi Ríkisútvarpsins.

Sigurlagið Landið mitt féll einkar vel að þeim skilyrðum sem fram komu í auglýstum reglum samkeppninnar.  Lagið er í fremur hefðbundnum stíl og kallast þannig á við hefð ættjarðarlaga, er bjart og einlægt, en með áhugaverðri úrvinnslu í dekkri millikafla. Ljóðið er lofsöngur til Íslands og fangar vel sérstöðu landsins í öllum sínum fjölbreytileika og andstæðum, en um leið er horft til framtíðar og í lokahendingunni rennur skáldið eða ljóðmælandinn saman við landið sjálft. Höfundur lags og ljóðs er Jóhann G. Jóhannsson.

Landið mitt var frumflutt á hátíðardagskrá í Hörpu að kvöldi 1. desember. Hægt er að hlusta á lagið hér.

 

Landið mitt

Þú ert ís, þú ert eldur og aldan blá,
þú ert auður og von og trú,
þú ert friðsæld og frelsi og fjöllin há,
landið fegursta, það ert þú.

Þegar vorsólin rís yfir borg og bæ
og hvert blóm fær sitt líf og lag
berst sem óður til lífsins í ljúfum blæ
söngur lóu um sumardag.

     Þú ert napurt norðanél, 
     þín er nóttin svört sem hel,
     þú ert dimm og hyldjúp gjá,
     þú ert dáið, lítið strá.
     Góða Ísland, gamla Ísland,
     þú sem geymir mín spor,
     gef mér kjark, gef mér dug, gef mér þor!

Sé með svikum og vélráðum veist að þér
skal ég verja hvern dal og hól
og að endingu tekur á móti mér
moldin þín þegar sest er sól.

 

Fréttir

287 þúsund gestir sóttu viðburði aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands

287 þúsund gestir sóttu viðburði aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Lesa meira
Lífsblómið – síðasta sýningarhelgi

Lífsblómið – síðasta sýningarhelgi

Lesa meira
Landið mitt - frumflutningur

Landið mitt - frumflutningur

Lesa meira