Kveðja forseta Íslands

Kæru vinir!

Sunnudaginn 1. desember 1918 var sæmilega bjart í Reykjavík, höfuðstað Íslands. Stytt hafði upp eftir sudda síðustu daga, froststilla ríkti. Undir hádegi kom fjöldi fólks saman við Stjórnarráðshúsið í brekkunni ofan Lækjartorgs, þingmenn og aðrir áhrifamenn, almenningur sem vildi fylgjast með fyrirhuguðum hátíðahöldum. Ekki vantar tilefnið. Sambandslögin eru gengin í gildi. Ísland er ekki lengur „óaðskiljanlegur hluti Danaveldis“ heldur frjálst og fullvalda ríki, í sambandi við Danmörku um einn og sama konung og annað samstarf, meðal annars meðferð utanríkismála og landhelgisgæslu.

Því er sömuleiðis fagnað þennan dag að með konungsúrskurði á Ísland nú fullgildan þjóðfána. Í fyrsta sinn er íslenskur tjúgufáni dreginn að húni, hægt og hátíðlega. Framtíðin bíður, með öllum sínum tækifærum, ógnum og áskorunum.

Hvernig mun þjóðinni farnast? Fyrr á árinu hafði frostaveturinn mikli leikið landsmenn grátt. Enn stendur kuldamet frá þeim tíma, mesta frost sem mælst hefur á Íslandi, 38 stig á Möðrudal á Fjöllum. Víða frusu hross í hel. Katla gaus einnig og olli usla. Úti í heimi var styrjöld nýlokið, af henni urðu þungar búsifjar. Þá geisaði spænska veikin og lagði nær fimm hundruð manna að velli. Nokkrum vikum fyrir fullveldisdag hafði varla sála verið á ferli í Reykjavík.

En svo birti til. Við getum gefið okkur að flestir þeirra sem komu saman við Stjórnarráðshúsið – byggingu sem áður var danskt tugthús, aðsetur stiftamtmanns og landshöfðingja – hafi horft björtum augum fram á veg. Auðvitað verður ekkert sannað í þeim efnum en samtímaheimildir og endurminningar gefa það þó til kynna. Og eflaust óskaði fólk þess helst að geta búið sér og börnum sínum betri heim, í skjóli öryggis, hamingju og sjálfstæðis.

Flest okkar, sem nú búum á Íslandi, erum komin af þeim sem lifðu þessa merku stund í sögu þjóðarinnar, fullveldisdaginn 1918. Árið 2018 fögnum við því að öld er liðin frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki. Þótt margt megi enn bæta í samfélagi okkar getur engum dulist að saman höfum við gengið til góðs. Lífslíkur eru mun betri og meiri, heilbrigðisþjónusta og almannatryggingar öflugri. Jafnrétti hefur stóraukist og mannréttindi sömuleiðis. Möguleikar til menntunar og afþreyingar eru allir aðrir. Sama er að segja um vald fólks til að ráða eigin lífi og láta drauma sína rætast.

Hvernig verða ókomin ár í sögu Íslendinga? Hvaða raunir, sigrar og tækifæri bíða okkar? Að mörgu leyti deilum við örugglega vonum og áhyggjum með fólkinu sem stóð á Stjórnarráðsblettinum fyrir heilli öld. Í öðrum efnum hefur heimurinn gerbreyst. Íbúar Íslands lifa ekki lengur einvörðungu á gæðum landsins og auðlindum sjávar. Auðlegðin nú veltur jafnframt á hugarafli fólks, menntun, vísindum og tækni. Vart verða kuldar sama ógn og fyrir hundrað árum. Mun meiri líkur eru á að hitamet falli og hlýnun jarðar valdi usla. Vonandi munum við ekki glíma við svipaðan faraldur og varð svo mörgum að aldurtila 1918 en velmegun hefur vakið aðra kvilla á sál og líkama. Fullt sjálfstæði hefur fengist en alþjóðasamvinna færist í vöxt á öllum sviðum, erlend áhrif á menningu og tungu meiri en áður þekktist þótt við höfum að vísu aldrei lifað í algerri einangrun. Okkur hefur tekist að nýta gæði náttúrunnar í ríkari mæli en þá eykst um leið hætta á mengun og spjöllum. Fjölbreytni í mannlífinu dafnar en fordómar geta staðið í vegi fyrir farsælli sambúð.

Góðir Íslendingar: Við skulum fagna þeim framförum sem orðið hafa frá fullveldisheimt. Við skulum einsetja okkur að verja og bæta í sífellu það þjóðfélag jafnra tækifæra og réttinda sem fólkið í landinu vill eiga saman. Við skulum stefna að því að gera enn betur. Og við skulum nýta þá viðburði, sem eru í vændum, til að minnast hinna miklu tímamóta sem urðu í landinu okkar á fullveldisdaginn 1918.