Dagsetning
11. maí
kl. 11:30-13:30
Staðsetning
Laugarvatnsskógur - bálskýli, Suðurland og Suðurnes
Skipuleggjendur
Aðgangseyrir
Nei
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

Frá fræi til nytjaskógar á fullveldistíma

Laugarvatnsskógur - bálskýli, Suðurland og Suðurnes

Þegar öld er liðin frá því að Ísland hlaut fullveldi á ný er þjóðin farin að hafa nytjar af þeim ræktuðu skógum sem uxu upp á fullveldistímanum. Starf Skógræktarinnar fyrstu áratugi fullveldistímans snerist að mestu um verndun og beitarfriðun birkiskóga en um miðja 20. öld hófst ræktun nytjaskóga fyrir alvöru. Sú ræktun byggðist á góðu þróunarstarfi sem unnið hafði verið áratugina á undan og fólst í því ásamt fleiru að velja hentugar trjátegundir til nytjaskógræktar hérlendis. Því má segja að skógrækt í þeirri mynd sem við þekkjum nú sé sprottin upp úr jarðvegi fullveldistímans.

Skógardagur verður haldinn í Laugarvatnsskógi 11. maí í vor, tileinkaður 100 ára fullveldi Íslendinga. Í Laugarvatnsskógi hefur Skógræktin ásamt heimafólki, skólum á staðnum og fleirum starfað að skógarfriðun og skógrækt allan fullveldistímann og því er þessi staður valinn til hátíðarhalda í tilefni fullveldisafmælisins. Svæðið hefur breyst úr berangri með lágvöxnu kjarri í blómlega skóga. Á skógardeginum verða gróðursett 100 úrvalstré í nýjan Fullveldislund og nýtt bálhús með snyrtingum tekið formlega í notkun. Bálhúsið er nær eingöngu byggt úr íslenskum viði af trjám sem uxu upp á Suðurlandi á fullveldistímanum. Verkefnið er samstarfsverkefni Skógræktarinnar, Bláskógabyggðar og skóla í sveitarfélaginu. Nemendur skólanna á Laugarvatni og í Reykholti taka þátt í viðburðinum með kórsöng ofl. ásamt heimafólki. Flutt verða skemmtiatriði úr heimabyggð, veitt fræðsla um skóga og skógrækt og efnt til skógargöngu.

Í fullveldi felst að hafa fulla stjórn á eigin málum og burði til að fullnægja á eigin spýtur öllum helstu þörfum og nauðsynjum. Timbur verður meginhráefni lífhagkerfisins sem senn tekur við af olíuhagkerfinu. Allt sem búið er til úr olíu má búa til úr trjám, hvort sem það er eldsneyti, byggingarefni, plast eða önnur gerviefni, hráefni í efnaiðnað, lyf og snyrtivörur og jafnvel dýrafóður og matvæli. Þjóð sem ekki verður sjálfri sér næg um timbur í lífhagkerfinu stendur ekki jafnstyrkum fótum og sú sem hefur nægar timburauðlindir. Nú svo komið að farin eru að sjást mannvirki sem eingöngu eru reist úr íslenskum viði. Gott dæmi um það er þjónustuhúsið í Laugarvatnsskógi. Um leið og skógar spretta upp og skapa viðarauðlind binst þar kolefni í stofnum, greinum, rótum og jarðvegi. Á tímum loftslagsbreytinga er skógrækt ein mikilvægasta aðgerðin sem tiltæk er svo binda megi kolefni úr andrúmsloftinu. Reynslan og þekkingin sem fengist hefur á fyrstu öld fullveldis nýtist vel til viðfangsefnanna sem bíða á þeirri næstu.

Velkomin í Laugarvatnsskóg 11. maí 2018!