Dagsetning
7. apríl - 18. september
Staðsetning
Allt landið
Skipuleggjendur
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

Samkeppni um hönnun og útlit Stjórnarráðsbyggingar

Allt landið

Í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands hefur forsætisráðuneytið í samvinnu við fjármálaráðuneytið, Framkvæmdasýslu ríkisins, Ríkiskaup og Reykjavíkurborg annars vegar auglýst og efnt til opinnar hönnunarsamkeppni (framkvæmdasamkeppni) um viðbyggingu við Stjórnarráðshúsið við Lækjargötu og hins vegar til opinnar hugmyndasamkeppni um skipulag Stjórnarráðsreits, sem markast af Skúlagötu, Lindargötu, Ingólfsstræti og Klapparstíg.  Dómnefndir hafa verið skipaðar fyrir hvort verkefnið og stefnt er að því að þær ljúki störfum í nóvember 2018.

-       Viðbygging við gamla Stjórnarráðshúsið: Um er að ræða um 1.200 m2 viðbygginu sem hýsi m.a. flestar skrifstofur forsætisráðuneytisins, fundarrými og aðstöðu fjölmiðla. Einnig þarf að endurskoða innra skipulag Stjórnarráðshússins og tengja það við viðbygginguna. Skilafrestur tillagna í framkvæmdasamkeppninni er til 25. september 2018, tvö fyrirspurnartímabil eru í samkeppninni. Veitt verða verðlaun að heildarfjárhæð 10 m.kr., þar af verða fyrstu verðlaun að lágmarki 5 m.kr. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Ríkiskaupa: https://www.rikiskaup.is/utbod/utb/20683

 

-       Hugmyndasamkeppni um skipulag Stjórnarráðsreits: Setja skal fram raunhæfar og spennandi tillögur um heildarlausn á skipulagi á reitnum þannig að byggja megi upp á heildstæðan hátt framtíðarhúsnæði ráðuneyta, stofnana ríkisins og dómstóla m.a. með hagræðingu í huga. Skilafrestur tillagna er til 18. september 2018, tvö fyrirspurnartímabil eru í samkeppninni. Veitt verða verðlaun að heildarfjárhæð 12 m.kr., þar af verða fyrstu verðlaun að lágmarki 6 m.kr. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Ríkiskaupa: https://www.rikiskaup.is/utbod/utb/20683

Báðar samkeppnirnar fara fram í samvinnu við Arkitektafélag Íslands og eru auglýstar á EES-svæðinu.

Forsætisráðherra mun afhenda verðlaun í báðum samkeppnum í Safnahúsinu við Hverfisgötu þann 30. nóvember.
Sýning á verðlaunatillögum og öðrum tillögum beggja samkeppnanna verður opnuð á fullveldisdeginum 1. desember 2018 og mun standa almenningi opin í Safnahúsinu til 31. desember.

Vonir standa til þess að hægt verði að kynna niðurstöður og tillögur beggja samkeppna 1. desember 2018.