Dagsetning
18. ágúst
kl. 10:00-22:00
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

Fullveldismaraþon ReykjavíkurAkademíunnar

Samkomutjald á Klambratúni, Höfuðborgarsvæðið

Á þeim tveimur áratugum sem ReykjavíkurAkademían ses, samfélag sjálfstætt starfandi fræðimanna hefur starfað, hefur ótrúlegur fjöldi bæði ungra og eldri fræðimanna, einkum í hug- og félagsvísindum, stundað fræðirannsóknir innan vébanda hennar. Margir þeirra hafa síðan horfið til fastra starfa, svo sem háskólakennslu eða rannsóknarstarfa á vegum ýmissa stofnana.

Á Fullveldismaraþoni ReykjavíkurAkademíunnar verður kallaður verði til stór hlut þessara fræðimanna (ásamt þeim sem nú eru starfandi í ReykjavíkurAkademíunni) og haldið  10 klukkustunda fyrirlestramaraþon um fullveldi Íslands í fortíð, nútíð og framtíð, en stærsti hópur áðurnefndra fræðimanna hefur einmitt stundað rannsóknir sem tengjast íslensku samfélagi, sögu þess, ímynd og þróun á mismunandi sviðum allt frá landnámi til okkar daga. Maraþonið verður því afar fjölbreytt og snertir margvíslega fleti íslensks samfélags í sögulegu og samfélagslegu ljósi.

Gert er ráð fyrir að hver fyrirlesari haldi 7 mínútna erindi að eigin vali, síðan gefist 3 mínútur til spurninga og umræðna og miðað sé við 5 fyrirlestra á klukkustund. Inn á milli yrði stöku sinnum skotið stuttum skemmtiatriðum, svo sem tónlist og bókmenntaupplestrum, enda hafa nokkur helstu nútímatónskáld og rithöfundar þjóðarinnar haft aðstöðu innan ReykjavíkurAkademíunnar um lengri eða skemmri tíma. Þarna kæmu því fram í allt um 50 fræðimenn og 5-10 listamenn.

Leigt verður nokkuð stórt samkomutjald ásamt borðum og stólum/bekkjum og sett niður miðsvæðis á Klambratúni á Menningarnótt þann 18. ágúst 2018,  á boðstólum verða einfaldar veitingar til sölu (eða  gestir geta nýtt sér veitingasölu á Kjarvalsstöðum). Gestir og gangandi geta komið og farið að vild, setið eins lengi og þá lystir og notið umfjöllunar og umræðna um fullveldi Íslands fyrr og nú á breiðum grundvelli. Þarna verða einnig til sýnis og sölu allur sá aragrúi fræðirita sem meðlimir ReykjavíkurAkademíunnar hafa samið og gefið út á undanförnum tveimur áratugum.

Fyrirlestramaraþonið verður tekið upp (bæði hljóð og mynd) og sett á heimasíðu ReykjavíkurAkademíunnar og yrði þar aðgengilegt til framtíðar.

Ávinningur af verkefni sem þessu verður líklega ekki metinn í krónum og aurum, heldur felst hann í því að þarna gefst almenningi kostur á að upplifa og kynna sér þá orðræðu sem fram fer um íslenska sögu og samfélag í fræðasamfélaginu á hnitmiðaðan og áhugaverðan en jafnframt afar aðgengilegan hátt. Svona viðburður getur bætt og dýpkað þá umræðu sem væntanlega fer fram um stöðu Íslands á þessu merkisári.

Þetta stutta fyrirlestraform gefur fræðimönnunum jafnframt tækifæri til að setja fram tilgátur og hugmyndir fremur en niðurstöður rannsókna. Þess er að vænta að fyrirlestrarnir í maraþoninu verði kveikja að umræðu og rannsóknum fyrirlesaranna sjálfra og annarra fræðimanna og almennings. 

Efst á baugi