Dagsetning
17. ágúst - 16. desember
Skipuleggjendur
Aðgangseyrir
Nei
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

Halldór Einarsson í ljósi samtímans

Listasafn Árnesinga, Suðurland og Suðurnes

Verk Halldórs er stór hluti af safnkosti Listasafns Árnesinga en hann afhenti safninu æviverk sitt árið 1974 til varðveislu. Halldór nam myndskurð hjá Stefáni Eiríkssyni á árunum 1916-1920 en fluttist að því loknu til  Vesturheims þar sem hann bjó og starfaði lengst af við tréskurð í húsgagnaverksmiðju í Chicago. Ytra lærði hann líka að höggva í marmara og stein og hann sinnti alla tíð myndskurði í frístundum. Halldór var sömu kynslóðar og brautryðjendur íslenskrar nútímamyndlistar. Að baki verka hans liggja ólíkar hugmyndir, í sumum þeirra birtist söknuður útflytjandans, sem horfir til baka á sögueyjuna, en í öðrum eru áhrif af táknfræði ólíkra menningarheima. Í verkunum má einnig sjá dulspeki líkt og í verkum Einars Jónssonar sem Halldór dáði og Halldór var hugmyndaríkur við túlkun alls konar táknmáls í tré og fór stundum ótroðnar slóðir.

Sýningin er sett upp til þess að kynna Halldór Einarsson, verk hans og þátt í sögu Listasafns Árnesinga. Hún er einnig sett upp í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands en á þeim tíma, 1916-1920, var Halldór við nám í myndskurði. Verk Halldórs eru flest unnin í tré og á sýningunni er leitast við að setja þau í samhengi við verk listamanna síðari kynslóðar, út frá mismunandi tilvísunum. Það eru verk eftir Önnu Hallin sem líkt og Halldór flutti frá sínu heimalandi og skapar á nýjum stað; verk eftir Birgi Snæbjörn Birgisson sem líkt og annað verk eftir Halldór er með pólitíska skírskotun til alþingismanna; verk eftir Guðjón Ketilsson sem líkt og Halldór vinnur einkum í tré og er líka með tilvísun í húsgagnaframleiðslu og verk Rósu Sigrúnar Jónsdóttur sem vísa til náttúrunnar, en síðustu ár sín í Bandaríkjunum bjó Halldór sem einsetumaður úti í skógi. Listaverk allra listamannanna fela í sér sýnilegt handverk af ólíkum toga.

Sýningarstjóri er Ásdís Ólafsdóttir listfræðingur.  

Safnið er opið alla daga frá kl. 12-18.

Efst á baugi