Dagsetning
16. júní
kl. 18:00-01:00
Aðgangseyrir
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

Horfðu til himins

Höllin Akureyri, Norðurland eystra

Þar sem kynslóðirnar dansa í takt!

Dagana fyrir 17. júní streyma gamlir menntskælingar til Akureyrar til að rifja upp góða tíma og fagna útskriftarafmæli sínu frá Menntaskólanum á Akureyri. Nýstúdentar fanga athyglina með hvítu kollunum á þjóðhátíðardaginn að lokinni útskrift  en dagana á undan eiga eldri nemendur sviðið með sína svörtu kolla.

Ekkert minna en þriggja daga hátíðahöld duga, dagana 14.-16. júní, og segja má að það sé algjörlega einstakt. Fyrsta daginn hittast gömlu bekkirnir hver fyrir sig í heimahúsum, daginn eftir hittist hver árgangur fyrir sig, gamli skólinn er skoðaður, heilsað upp á kennara og haldið út í óvissuna.

Að kvöldi 16. júní er svo hápunkturinn þegar allir afmælisárgangarnir safnast saman í Höllinni þar sem fer fram sameiginlegt borðhald og hátíðardagskrá. Hátt í 800 manns munu taka þátt með mökum og hópurinn er mjög fjölbreyttur.

Yngstir eru eins árs stúdentar sem kasta af sér hvíta kollinum á miðnætti en þeir elstu sem hafa boðað komu sína þetta árið eru 70 ára stúdentar. Það má segja að í Höllinni munu því kynslóðirnar dansa saman í takt en boðið verður upp á fjölbreytta skemmtun við allra hæfi, gömlu dansana, Í svörtum fötum og eftirsóttan trúbador og sjónvarpsmann frá Katalóníu. Sá heitir Halldór Már Stefánsson og fagnar einmitt 25 ára stúdentsafmæli í sumar. 

Ekki má gleyma fjöldasöngnum þar sem sömu lögin eru sungin ár eftir ár, áratugum saman. Rúgbrauð með rjóma á, kyrjað yfir breska þjóðsöngnum mun án efa lyfta þakinu af Höllinni.

Sérstakt þema hátíðarinnar í ár er 100 ára afmæli fullveldis Íslands en þann 1. desember næstkomandi verða hundrað ár frá því Ísland varð frjálst og fullvalda ríki árið 1918. MA er skóli hefðanna og 1. desember hefur skipað stóran sess í sögu skólans. MA er raunar annar tveggja skóla sem hefur haldið 1.desember hátíðlegan, hinn er Háskóli Íslands.

Matseðillinn sem boðið verður upp á í Höllinni er fjölbreyttur og skemmtilegur, og andi fullveldis svífur að sjálfsögðu yfir vötnum. Boðið verður upp á rúgbrauð með rjóma á, rækjukokteil, grafinn hrossavöðva, þorskhnakka, lambakjöt, pönnukökur og brodd-brulee, frá Ingvari og Deddu á Hólabaki (25 ára stúdentar bæði)  svo eitthvað sé nefnt.

Að borðhaldi loknu mun hin þjóðþekkta söngkona Helena Eyjólfsdóttir, hefja dansleik kvöldsins með nokkrum vel völdum lögum við undirleik  hljómsveitarinnar Í svörtum fötum.