Dagsetning
12. október
kl. 20:00
Aðgangseyrir
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

Hvað er að gerast í íslenskri tónlist? Popp/indí/raftónlistarkvöld

Hotel Cecil, Kaupmannahöfn, Erlendis

Sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn býður í samvinnu við Útón upp á tvö kvöld með íslenskri tónlist í Kaupmannahöfn í tilefni af hátíðarhöldum tengdum aldarafmæli fullveldis Íslands. 

11. og 12. október mun einvala lið íslenskra tónlistarmanna leggja undir sig tónleikastaðinn Hotel Cecil í Kaupmannahöfn. Í boði verður þverskurður af því sem íslensk tónlistarsena býður upp á um þessar mundir.

Seinna kvöldið, 12. október, er tileinkað íslenskri popptónlist, indí og raftónlist. Popp- og indítónlistarsenan á Íslandi hefur blómstrað í áratugi, en einnig er áhugavert að fylgjast með hvað er að gerast í ört vaxandi raftónlistarsenunni. Tónlistarfólk kvöldsins kemur úr öllum áttum. Sumir hafa verið meðlimir annarra vel þekktra hljómsveita og aðrir eiga það sameiginlegt að vera á hraðri uppleið innan tónlistarheimsins. Tónlistarmaðurinn Auður, sem er að stíga sín fyrstu skref inni á dönskum tónlistarmarkaði, og tónlistarkonan ALVIA, sem tilnefnd var til Nordisk Music Price 2018, eru þar sem dæmi. Hljómsveitirnar Team Dreams og Mr. Silla eru samsettar af meðlimum hljómsveita líkt og MÚM og Sin Fang og Sóley. Það verður spennandi að sjá þessa reyndu tónlistarmenn leiða saman hesta sína á nýjum vettvangi.

Fram koma:
Mr. Silla
Auður
Team Dreams
ALVIA

Blómleg og fjölbreytt tónlistarsena Íslands, sem spannar allt frá hipphopp-tónlist til klassískrar tónlistar á heimsmælikvarða, vekur eftirtekt erlendis nú sem aldrei fyrr. Sigur Rós og Björk hafa eflaust rutt brautina fyrir komandi kynslóðir en eitt er þó víst, að fjöldi íslenskra tónlistarmanna sem spilar utan landsteinanna er hreint ótrúlegur miðað við höfðatölu.

Erfitt er að meta hvort íslenska náttúran sé áhrifavaldur þegar kemur að sköpun tónlistar eða þá að aldagömul hefð Íslendinga fyrir kvæðaskap og ljóðskrifum spilar þar inn í. Þeim spurningum verður seint svarað. Við munum einungis bjóða með stolti tónlistarfólkið okkar velkomið og það er von okkar að þið njótið veislunnar.