Dagsetning
1. júní - 31. ágúst
Aðgangseyrir
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

Liljur Vallarins

Heimilisiðnaðarsafnið, Árbraut 29, Blönduósi., Norðurland vestra

Sumarsýning Heimilisiðnaðarsafnsins ber að þessu sinni titilinn Lilju vallarins. Það er listakonan Louise Harris sem sýnir þar verk sín en undanfarin ár hefur hún gert tilraunir með íslenska ull, einkum þel. Um er að ræða þæfð verk með blandaðri tækni s.s. útsaumi, prjóni og hekli. Verkin hafa skírskotun til íslenskrar náttúru með öllum sínum breytileika í litum og tónum.

Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur, mun aðstoða listakonuna við uppsetningu sýningarinnar.

Markmið sumarsýningarinnar er að auka við sýningarflóru Heimilisiðnaðarsafnsins. Einnig að gefa íslensku textíllistafólki möguleika á að sýna list sína. Slíkar listsýningar veita safngestum nýja og fjölbreytta sýn á íslenska handíðn sem og hvernig hægt er að tengja hana á mismunandi og nýstárlegan hátt við safnmuni fortíðar þ.e. við þjóðararfinn.

Þess skal getið að fyrir utan mjög svo ólíkar sérsýningar/Sumarsýningar safnsins ár frá ári, mynda munir safnsins nokkrar „fastar“ sýningar. Um er að ræða útsaumssýningu, sýningu á þjóðbúningum, ullarsýningu, áhöld og verkfæri sem notuð voru við heimilisiðnað og Halldórustofu sem helguð er lífi og starfi Halldóru Bjarnadóttur (1873-1981).

Heimilisiðnaðarsafnið er viðurkennt safn samkvæmt safnalögum 141/2011. Það er rétt eins og mörg söfn á Íslandi, stolt samfélagsins og eina sinnar tegundar á Íslandi. Það varðveitir fyrst og fremst menningararf kvenna sem hefur fengið fremur takmarkaða athygli í söfnum landsins.

Á heimasíðu safnsins www.textile.is má sjá sýnishorn af Sumarsýningunum og öðrum menningarviðburðum safnsins ásamt yfirliti um starfsemi þess.

Efst á baugi