Dagsetning
19.-23. nóvember
Staðsetning
Úrval grunnskóla á Vesturlandi, Vesturland
Skipuleggjendur
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

Mannfræði fyrir krakka – skapandi vinnusmiðjur

Úrval grunnskóla á Vesturlandi, Vesturland

Í vinnusmiðjunni verður unnið á skapandi hátt með hugtakið „þjóð“. Börnin skapa eigin texta og myndmál út frá spurningum og umræðukveikjum. Að smiðjunni lokinni verður sett upp sýning á verkum barnanna í sýningarrými bókasafnsins. Verkefnið tengist nýrri útgáfu í bókaröðinni Mannfræði fyrir krakka (e. Anthropology for Kids) sem áformað er að gera aðgengilega fyrir íslensk börn.

Smiðjurnar verða skipulagðar á skólatíma í samstarfi við grunnskóla á hverjum stað.

Verkefnið er hugsað út frá mikilvægi þess að hvetja börn og ungt fólk til að nýta eigin sköpunarkraft, beita gagnrýninni hugsun og draga sjálfstæðar ályktanir um uppbyggingu samfélagsins og stofnanir þess. Þannig er lagður grundvöllur að lýðræðisvitund­­, víðsýni og samfélagslæsi til framtíðar.

Efni bókanna er byggt þannig upp að börnin gerast meðhöfundar þeirra með því að vinna í þær eigið myndmál og texta. Hver bók tekst á við sammanlegt þema – í þessu tilviki þjóð – með það að markmiði að opinbera hinn ótrúlega fjölbreytileika mannlífsins.

Á sama tíma og Íslendingar fagna 100 ára fullveldisafmæli og sigri hugmyndarinnar um sjálfstæða þjóð í sjálfstæðu landi – með sterk tengsl við umhverfi sitt og aldagamla íslenska menningu – er samsetning íslensks samfélags að verða mun fjölbreyttari. Hugmyndin er að stuðla að því að hugmyndir um þjóðina séu ekki frystar í klakaböndum tímans heldur fái að þróast í samræmi við þær breytingar sem samfélag okkar tekur. Efnið og vinnusmiðjurnar sem hér um ræðir hvetja börn til að meta, velta fyrir sér og setja niður eigin „kenningar” um þetta hugtak sem bæði sundrar og sameinar. Geta allir fengið að tilheyra íslenskri þjóð? Hvað sameinar þjóðir? Hvaða máli skiptir þjóðerni?

Mannfræði fyrir krakka er fjölþjóðlegt og vaxandi samstarf mannfræðinga, menningarfræðinga, sýningarstjóra, listafólks og annarra, auk samstarfsstofnana og styrktaraðila. Aðalhöfundur bókanna og upphafsmaður samstarfsins er frumkvöðullinn og listakonan Nika Dubrovsky. Hún er af rússnesku bergi brotin en býr og starfar í Berlín, Þýskalandi.

Sara S. Öldudóttir, félagsvísindakona og menningarstjórnandi, er tengiliður verkefnisins á Íslandi.

Ragnheiður Gestsdóttir, myndilstarkona, mun taka þátt í að leiða smiðjurnar.

Verkefnið er unnið í samstarfi við Borgarbókasafn Reykjavíkur og List fyrir alla og styrkt af Fullveldissjóði og Goethe Institut.

Nánari upplýsingar um verkefnið á heimasíðunni www.a4kids.org

Efst á baugi