Dagsetning
1. desember
kl. 14:00-16:00
Aðgangseyrir
Nei
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

Menningardagskrá barna - 1. des. 2018

Listasafn Árnesinga / Bókasafnið í Hveragerði, Suðurland og Suðurnes

Um árabil hafa Bókasafnið í Hveragerði og Listasafn Árnesinga í Hveragerði efnt til menningardagskrár að kvöldi fullveldisdagsins 1. desember, þar sem myndlist, orðlist og tónlist er teflt saman eina kvöldstund. Í tilefni 100 ára afmælis fullveldisdagsins sem árið 2018 ber upp á laugardag verður efnt til menningardagskrár með börnum og fyrir börn um miðjan dag og Grunnskólinn í Hveragerði bætist við sem samstarfsaðili.

Efnt verður til ritunarsamkeppni og samkeppni í myndmennt út frá fullveldishugtakinu innan skólans á haustmisseri. Óháðar dómnefndir verða fengnar til að velja nokkur verk sem verða verðlaunuð út frá mismunandi forsendum til þess að leggja áherslu á fjölbreytta nálgun viðfangsefnisins. Úrval myndverka verður til sýnis í Listasafni Árnesinga og úrval ritverka í Bókasafninu frá og með 16. nóvember og út árið.

Á Menningardagskrá barna - 1. des. 2018 verða niðurstöður dómnefnda kynntar og viðurkenningar veittar. Þá munu börn kynna og lesa úr nokkrum völdum ritverkum og kynna nokkur valin myndverk. Tónlistarflutningur á menningardagskránni 1. des. verður í höndum barna sem stunda nám við Tónlistarskóla Árnesinga.

Um leið og aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands er minnst gefst börnunum tækifæri til að setja fullveldishugtakið í mismunandi samhengi og tengja nútímanum - og börnum og fjölskyldum þeirra, ásamt öðrum íbúum svæðisins, gefst kostur á að eiga samverustund sem auðgar andann með áhugaverðri dagskrá.

Efst á baugi