Dagsetning
7.- 8. september
Skipuleggjendur
Aðgangseyrir
Nei
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

Ráðstefna um gildi menntunar fyrir íslenskt samfélag og atvinnulíf í fortíð og framtíð

Aðalbygging Háskóla Íslands, Höfuðborgarsvæðið

Fram eftir 19. öld og fram á þá 20. var skólastarf á Íslandi óburðugt og menntun barna fór að miklu leyti fram á heimilum, en háskólamenntun þurftu Íslendingar að sækja til Kaupmannahafnar. Um aldamótin 1900 var íbúafjöldi landsins innan við 80 þúsund og flestar samfélagslegar grunnstoðir landsins vanþróaðar: vegi vantaði, verslun var að miklu leyti í höndum erlendra kaupmanna og atvinnulíf á Íslandi var bæði fábreytt og frumstætt. Stofnun Háskóla Íslands árið 1911, sjö árum áður en Ísland hlaut fullveldi, markaði þáttaskil. Í byrjun var aðalmarkmið Háskóla Íslands að mennta embættismenn fyrir hið unga íslenska ríki. En smám saman óx skólanum fiskur um hrygg og hefur hann leikið lykilhlutverk í þeim gríðarlegu framförum sem átt hafa sér stað í íslensku samfélagi á undanfarinni öld. Skólinn hefur jafnframt ríkar skyldur við íslenskt samfélag. Með því að mennta yfir 60 þúsund manns til margvíslegra sérhæfðra starfa hefur skólinn lagt grunn að því að Ísland er í dag lýðræðisríki sem býr við einhverja mestu velmegun og velsæld sem gerist á meðal þjóða heimsins. Óhætt er að fullyrða að fáir háskólar hafi haft jafn víðtæk áhrif á það samfélag sem þeir þjóna og Háskóli Íslands, því enn er hann eini alhliða háskólinn á Íslandi og til hans hefur yfirgnæfandi meirihluti íslenskra menntamanna sótt háskólamenntun sína. Síðustu ár hefur þessi staða skólans verið staðfest í alþjóðlegum könnunum, Háskóli Íslands raðast nú meðal 250 bestu háskóla heims á hinum viðurkennda matslista Times Higher Education World University Rankings. 

Haustið 2018 verður haldin við Háskóla Íslands stór alþjóðleg ráðstefna um hlutverk menntunar og rannsókna í íslensku samfélagi og atvinnulífi í fortíð og framtíð. Ráðstefnan verður opin almenningi og verður henni varpað í beinni útsendingu. Í kjölfar ráðstefnunnar verða erindin gefin út í bókarformi. 

Til ráðstefnunnar verður boðið helstu sérfræðingum Íslands um viðfangsefnið, auk þess sem gert er ráð fyrir að 1-2 erlendir sérfræðingar um framtíð þekkingarsamfélaga flytji framsöguerindi. 

Meginmarkmiðið með ráðstefnunni er að varpa ljósi á það hvernig menntun og rannsóknir hafa áhrif á þróun samfélaga á öllum sviðum í sögu og samtíð. Lögð verður áhersla á að greina hvernig unnt er að beita menntakerfi og vísindastarfi til að búa í haginn fyrir áframhaldandi efnahagslega velsæld og farsælt samfélag og styrkja þar með fullvalda lýðræðisríki á Íslandi á 21. öld. 

Efst á baugi