Dagsetning
7.- 8. september
Skipuleggjendur
Aðgangseyrir
Nei
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

Fullveldið, háskólinn og framtíðin – gildi háskóla fyrir íslenskt samfélag

Aðalbygging Háskóla Íslands, Höfuðborgarsvæðið

 

Fullveldið, háskólinn og framtíðin

– gildi háskóla fyrir íslenskt samfélag

Háskóli Íslands stendur fyrir ráðstefnu í tilefni aldarafmælis fullveldis Íslands dagana 7.-8. september. Markmið hennar er að varpa ljósi á það hvernig menntun og rannsóknir hafa áhrif á þróun samfélaga og þá ekki síst hvernig unnt er að beita menntakerfi og vísindastarfi til að búa í haginn fyrir áframhaldandi efnahagslega velsæld og farsælt samfélag og styrkja þar með fullvalda lýðræðisríki á Íslandi á 21. öld.

Ráðstefnan er tvískipt. Föstudaginn 7. september kl. 15-17 verður umræðufundur í Hátíðasal Aðalbyggingar þar sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og fræðimennirnir Beverly Oliver, prófessor við Deakin University í Ástralíu og sérfræðingur í stafrænu námi og kennslu, og Talbor Brewer, prófessor við University of Virginia í Bandaríkjunum og sérfræðingur í siðfræði og stjórnmálaheimspeki, flytja erindi. Sá hluti ráðstefnunnar fer fram á íslensku og ensku.

Laugardaginn 8. september, frá kl. 9.30-16.15, verður boðið upp á fjórar málstofur og pallborðsumræður í fundarsal Veraldar – húss Vigdísar þar sem fjallað verður um háskóla – og þá einkum Háskóla Íslands – á gagnrýnin hátt en ætlunin er að draga fram bæði þátt háskóla í að móta samfélagið með kennslu og rannsóknum. Þátttakendur koma af öllum fimm fræðasviðum Háskóla Íslands og úr hópi stúdenta. Þessi hluti ráðstefnunnar fer fram á íslensku. 

Í málstofunum verður m.a. leitað svara við eftirfarandi spurningum:
• Hvaða hlutverki gegndi Háskóli Íslands við stofnun fullvalda ríkis á Íslandi? 
• Hvernig geta háskólar stutt við aðlögun íslenskrar menningar og tungumáls að hröðum tæknibreytingum samtímans og viðhaldið þannig menningarlegu fullveldi þjóðarinnar?
• Hvernig geta háskólar stuðlað að auknu jafnrétti í samfélaginu og gert þannig sem flestum borgurum landsins kleift að taka virkan þátt? 
• Hvaða hlutverki hafa stofnanir á borð við Háskóla Íslands gegnt við að efla íslenskt atvinnulíf og tryggja samkeppnishæfni landsins í framtíðinni? 
• Er hugmyndin um Háskóla Íslands sem þjóðskóla fallin úr gildi nú á tímum alþjóðavæðingar?
• Mun háskólanám færast frá staðbundnum stofnunum yfir í alþjóðleg stórfyrirtæki sem reka háskólakennsluna að mestu í fjarnámi? 
• Hvaða áhrif mun „fjórða iðnbyltingin“ mun hafa á starfsemi háskóla?
• Hvað er nýsköpun og hvernig geta háskólar – og menntakerfið í heild – stuðlað að fjölbreyttri og öflugri nýsköpun í samfélaginu?

Ráðstefnunni lýkur með pallborðsumræðum.

Ráðstefnan er öllum opin öllum og aðgangur ókeypis. Hún er liður í hátíðahöldum vegna aldarafmælis fullveldis Íslands en þess hefur verið minnst með ýmsum hætti eins og fræðast má um á fullveldi1918.is

Nánari dagskrá ráðstefnunnar er að finna á vef Háskólans: https://www.hi.is/fullveldi1918