Dagsetning
6. júlí
kl. 17:00-18:30
Skipuleggjendur
Aðgangseyrir
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

Sunnansól og hægviðri

Vestmannaeyjar / Hvítasunnukirkjan, Suðurland og Suðurnes

Lúðrasveit Vestmannaeyja og Karlakór Vestmannaeyja verða með sameiginlega tónleika föstudaginn 6.júlí í Hvítasunnukirkjunni Vestmannaeyjum. Þar verður flutt í heild sinni Sólarsvíta Árna Johnsen auk annarra tónverka eftir íslensk tónskáld allt frá árinu 1918 til dagsins í dag.

Sólarsvítan samanstendur af 14 lögum eftir Árna Johnsen við texta nokkurra íslenskra skálda. Þau eru: Indriði G. Þorsteinsson, Árni Johnsen Jón Krisinn Cortez, Matthías Johannessen, Halldór Kiljan Laxness, Steinn Steinarr, Tómas Guðmundsson og Jónas Guðlaugsson.

Útsetningu fyrir Lúðrasveit gerði Össur Geirsson upp úr sinfoníuútsetningu Ed Welch. Jón Kristinn Cortez raddsetti.

Karlakór Vestmannaeyja var endurstofnaður fyrir tveim árum, en þá hafði ekki verið karlakór í Vestmannaeyjum í rúma hálfa öld. Hefur kórinn fengið fljúgandi start og eru nú félagar komnir á fimmta tuginn. Kórinn hefur komið fram við ýmist tækifæri auk þess að halda árlega vortónleika í Vestmannaeyjum. Stjórnandi kórsins er Þórhallur Barðason frá Kópaskeri.

Lúðrasveit Vestmannaeyja hefur starfað óslitið frá árinu 1939 og fagnar því 80 ára stórafmæli á næsta ári. Einn af stofnendum sveitarinnar var Oddgeir Kristjánsson og stjórnaði hann sveitinni frá stofndegi til dauðadags árið 1966. Á dagskrá tónleikanna mun sveitin flytja verk eftir þennan máttarstólpa í menningu Eyjanna. Lúðrasveitin lifir enn góðu lífi, árlega eru haldnir hausttónleikar auk þess sem sveitin hefur víða komið fram í alls kyns verkefnum stórum sem smáum. Stjórnandi Lúðrasveitar Vestmannaeyja er Jarl Sigurgeirsson.

Tónleikana ber upp á goslokahelgi í Vestmannaeyjum sem er óvenju vegleg í ár, enda 45 liðin frá lokum jarðelda á Heimaey.