Dagsetning
1. desember
kl. 20:30-21:30
Aðgangseyrir
Nei
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

Þjóðlegir tónleikar í gömlu kirkjunni - Gadus morhua.

Gamla kirkjan í Stykkishólmi, Vesturland

Hvað ef baróninn í samnefndi heimildarskáldsögu Þórarins Eldjárns hefði tekið hús á tónelskum bónda í Borgarfirði, sest í eitt fleti baðstofunnar með selló milli fóta, bóndinn andspænis með langspil við sitt hvora hnésbótina, og þeir tekið að leika saman? Hvernig ætli slíkur samruni forneskjulegrar baðstofumenningar og þokkafullrar heimsmenningar hafi hljómað? Í tilraun til að sameina kvöldvökur baðstofanna og tónlistarflutning evrópskrar hirðmenningar velta þessari spurningu fyrir sér þau Eyjólfur Eyjólfsson söngvari og langspilsleikari, Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttur barokksellóleikari og kvæðakona og Björk Níelsdóttir söng- og tónlistarkona. Efnisskrá hópsins samanstendur af frumsömdu efni, klassískum sönglögum og þjóðlögum, bæði íslenskum og erlendum. Allar útsetningar eru unnar af flytjendum þar sem fléttast saman hljómheimar barokksins og baðstofunnar. Eyjólfur Eyjólfsson stundaði nám í flautuleik og söng í Hafnarfirði áður en hann flutti til Lundúna, þar sem hann lauk mastersgráðu í söng og óperudeild Guildhall School of Music and Drama. Hann hefur víðtæka reynslu í flutningi á óperum, óratoríum, sönglögum og kammertónlist frá barokktímanum til samtímatónlistar. Áhugi hans á þjóðlegum fræðum leiddi hann að langspilinu, sem hann nú leikur á og syngur með. Björk Níelsdóttir er fjölhæf söngkona og trompetleikari. Hún stundaði nám í klassískum söng við Tónlistarskólann í Hafnarfirði og við Tónlistarháskólann í Amsterdam. Björk hefur komið víða fram, m.a. á tónleikaferðlagi með Florence and the Mahine og Björk, ásamt því að hafa komið að fjöldamörgum óperuuppfærslum víða í Hollandi. Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir stundaði nám við Tónlistarskólana á Akureyri og í Reykjavík áður en hún hélt til framhaldsnáms í Frakklandi þar sem hún býr. Hún hefur leikið með ýmsum barokkhópum og -hljómsveitum í Frakklandi, stórum og smáum. Hún er einn af stofnendum Corpo di Strumenti og kammersveitarinnar Ísafoldar.

Efst á baugi