Dagsetning
3. nóvember
kl. 15:00-17:00
Skipuleggjendur
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

Vaki þjóð: Ævi og störf Þorsteins Valdimarssonar skálds

Salurinn, Kópavogi, Höfuðborgarsvæðið

Þessi menningarviðburður er haldinn í 100 ára minningu Þorsteins Valdimarssonar (1918-1977) og fullveldis landsins. Á þessum menningarviðburði verða flutt erindi um ævi og verk skáldsins og ljóð og lög hans flutt af tónlistarfólki. Í erindum um skáldið verður leitast við að tengja inntak verka hans við stef úr sjálfstæðisbaráttunni og í tónlistarflutningi á verkum hans verður miðað við að virkja m.a. ungt tónlistarfólk. Samhliða yrði opnuð sýning á handritum skáldsins í Bókasafni Kópavogs.

Meðal þeirra sem koma fram á dagskránni í Kópavogi eru: Karlakór Kópavogs undir stjórn Garðars Cortes, Skólakór Kársness undir stjórn Álfheiðar Björgvinsdóttur og söngvarar sem Þorgerður Ingólfsdóttir kórstjóri hefur valið. Einnig verður flutt erindi um skáldið þar sem leitast verður við að tengja inntak verka hans við stef úr sjálfstæðisbaráttunni. 

Þorsteinn Valdimarsson skáld fæddist 31. október 1918 í Brunahvammi sem er eitt af heiðarbýlunum í Vopnafirði en óx úr grasi í Teigi í Vopnafirði. Foreldrar hans voru hjónin Guðfinna Þorsteinsdóttir, skáld sem birti ljóð sín undir nafninu Erla, og Valdimar Jóhannesson bóndi. Þorsteinn varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1939 og lauk síðan guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands eftir einungis tveggja ára nám. Eftir það var hann einn vetur við tónlistarnám í Vínarborg, en áður hafði hann stundað nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Í Leipzig í Þýskalandi dvaldist hann um tveggja ára skeið (1959-1961). Þorsteinn bjó lengstan aldur á  Nýbýlavegi 5 (nú Birkigrund 9) í Kópavogi. Hann var kennari við Stýrimannaskólann í Reykjavík í nærfellt tvo áratugi, eða allt til dauðadags 7. ágúst 1977. 

Þorsteinn samdi átta ljóðabækur, Villta vor, Hrafnamál, Heimhvörf, Heiðnuvötn, Limrur, Fiðrildadans, Yrkjur og Smalavísur. Hann var einnig gott tónskáld og hafa m.a. verið gefin út 32 sönglög eftir hann.  Að auki vann Þorsteinn mikið þýðingarstarf, einkum á söngljóðum. „Við slík vandaverk nutu sín vel hæfileikar Þorsteins á sviðum beggja listgreina, skáldskapar og tónlistar, enda mun enginn Íslendingur hafa unnið jafn stór og vandasöm verk af þessu tagi og hann“ (Eysteinn Þorvaldsson. 1998. Inngangur. Í Þorsteinn Valdimarsson, Ljóð. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands). Þorsteinn þýddi þrjár óperur og allmarga söngleiki og tvö af hinum stóru söngverkum Bachs: Jólaoratoríuna og Mattheusarpassíuna. 


Í ljóðum sínum lætur Þorsteinn Valdimarsson sig þjóðfélagsmál miklu skipta og hafði ákveðnar skoðanir í þeim efnum. Þjóðmálaviðhorf hans einkennast af metnaði og umhyggju fyrir fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar og andúð á hernaði og áþján.
Í mörgum ljóðum hans endurspeglast togstreita milli þjóðfrelsis og alþjóðahyggju sem segja má að séu leiðarstef í sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar á 20. öldinni. Þjóðfrelsisviðhorf Þorsteins voru nátengd náttúrusýn hans sem einkenndist alla tíð af virðingu fyrir náttúrunni, vernd hennar og ást á heimahögum. Í ljóðum skáldsins kemur einnig fram mikil tryggð við íslenskan menningar- og ljóðaarf, einkum Eddukvæði. Heiti verkefnisins, „Vaki þjóð“, er tekið úr einu af þekktari ljóðum skáldsins, Draumvísu, sem er hvatning til þjóðarinnar um að standa vörð umfullveldi og sjálfstæði og afneita hernaðarhyggju og nýlendudrottnun.