Dagsetning
1. desember
kl. 13:30-16:00
Aðgangseyrir
Nei
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

Vísindi og samfélag - 100 ára afmæli Vísindafélags Íslendinga

Kjarvalsstaðir, Höfuðborgarsvæðið

Aldarafmæli Vísindafélags Íslendinga

 Vísindafélag Íslendinga fagnar aldarafmæli sínu þann 1. desember 2018 með afmælismálþingi á Kjarvalsstöðum kl. 13-16. Setja má stofnun félagsins í beint samhengi við samþykkt sambandslaganna 1918 og þær framtíðarvonir sem þau glæddu, m.a. fyrir vísindastarf á Íslandi.

Yfirskrift þingsins er „Vísindafélag hverra?“ og verður sjónum beint að sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar, hvernig hún hefur mótast og verið mótuð í gegnum tíðina.

Fræðimenn á sviði listrannsókna, mannfræði, stjórnmálafræði og sagnfræði munu skoða hugmyndir um íslenska þjóð og íslenskt þjóðríki frá ýmsum sjónarhornum og jafnframt velta því fyrir sér hvort og hvernig komandi kynslóðir muni bera þær hugmyndir áfram inn í aðra öld fullveldis.

Dagskráin samanstendur af fjórum erindum en að þeim loknum verður boðið upp á léttar veitingar.

Fundarstjóri er Kristján Leósson

Dagskrá:

Ávarp: Erna Magnúsdóttir, forseti Vísindafélags Íslendinga

Guðmundur Oddur Magnússon (Goddur), Rannsóknarprófessor við Listaháskóla Íslands

Myndmál fullveldisins

Um uppruna, helgun og afhelgun myndmáls þjóðarinnar, tilurð skjaldarmerkis fullveldisins, fjallkonunnar, fánans.

Unnur Dís Skaptadóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands

Þjóð, tunga og innflytjendur

Íslensk tunga gegnir mikilvægu hlutverki í skilgreiningu á íslensku þjóðerni og aðgreiningu Íslendinga frá öðrum þjóðum. Tungumálið hefur verið veigamikið tákn til að lýsa sameiginlegum uppruna og menningu Íslendinga. Fjölgun fólks sem talar íslensku sem annað mál eða talar litla íslensku hefur vakið upp spurningar. Er íslenskan lykillinn að samfélaginu? Vilja innflytjendur ekki læra íslensku? Er þeim gert kleift að læra málið? Í fyrirlestrinum verður velt upp hugmyndum um íslenskt þjóðerni og sjónum meðal annars beint að hlutverki tungumálsins í að skilgreina hverjir geti gert tilkall til íslenska þjóðernisins.

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst

Fullveldið og merking þess á nýrri öld

Rætt er um merkingu fullveldisins í hugum Íslendinga í sögu og samtíð. Farið er yfir fullveldisbaráttuna á nítjándu öldinni og áhrifum fullveldisins á þeirri tuttugustu. Þá eru utanríkissamskipti Íslands skoðuð út frá bæði praktískri sem og huglægri merkingu fyrirbærisins á tuttugustu og fyrstu öldinni.

Sigríður Matthíasdóttir, sagnfræðingur

Þjóðerni, kvenréttindabarátta og Alþingishátíðin 1930

Í fyrirlestrinum verður fjallað um kvenréttindabaráttu þriðja áratugar 20. aldar og hugmyndir um þjóðernið sem karllegt fyrirbæri. Verður þetta sett í samhengi við Alþingishátíðina 1930. Hátíðin lék mikilvægt hlutverk í mótun sjálfsmyndar íslensku þjóðarinnar og kvennahreyfingin barðist ötullega fyrir því að konur fengju hlutdeild í henni. Þar töluðu þær þó fyrir  daufum eyrum. Í fyrirlestrinum verður beint sjónum að tengslum þessa málefnis við þróun kvenréttindahreyfingarinnar á tímabilinu.    

 

Aðgangur er ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir. Boðið verður upp á léttar veitingar að málþingi loknu.

Málþingið er hluti af röð málþinga um vísindi og samfélagslegar áskoranir sem Vísindafélags Íslendinga stendur fyrir í tilefni af aldarafmæli félagsins. Hlutdeild vísindanna í íslenskri menningu frá fullveldi er m.a. skoðuð á málþingunum en félagið var stofnað sama dag og Ísland varð fullvalda ríki með það í huga að öflug vísindastarfsemi væri þjóðinni nauðsynleg til að dafna. Ekki síður er þó hugmyndin að stuðla að almennri umræðu um samhengi vísindanna við samfélagslegar áskoranir með framtíðina í huga.

 

Efst á baugi