Dagsetning
16. nóvember
kl. 13:00-17:00
Aðgangseyrir
Nei
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

Umhverfismál á nýrri öld: Viðhorf Íslendinga til loftslags- og orkumála í evrópsku samhengi

Þjóðminjasafn Íslands. Suðurgötu 41. 101 Reykjavík., Höfuðborgarsvæðið

 „Umhverfismál á nýrri öld: Viðhorf Íslendinga til loftslags- og orkumála í evrópsku samhengi“

í tilefni aldarafmælis Vísindafélags Íslendinga í samstarfi Félagsfræðingafélags Íslands, Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideildar, Félagsvísindastofnunar, Umhverfis- og auðlindafræði og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Hornafirði, föstudaginn 16. nóvember 2018 milli kl. 13 og 17 í fyrirlestrasal Þjóðminjasafnsins við Suðurgötu.

Loftslagsbreytingar af mannavöldum hafa þegar haft veruleg áhrif lífsskilyrði á Íslandi og jörðinni allri og allar líkur eru á að þau áhrif muni einungis aukast. Ljóst er að við, bæði einstaklingar og samfélag, þurfum að breyta hegðun okkar, sérstaklega þegar kemur að nýtingu orku og annarra náttúruauðlinda áður en það verður of seint. En hver eru viðhorf Íslendinga til málaflokksins? Höfum við einhverjar áhyggjur og erum tilbúin til að taka ábyrgð og gera það sem þarf? Og hvernig eru viðhorf okkar í samanburði við viðhorf almennings í öðrum Evrópulöndum?

Árni Bragi Hjaltason, verkefnastjóri við Félagsvísindastofnun, mun gera grein fyrir könnuninni „Lífsviðhorf Evrópubúa eða European Social Survey“ sem framkvæmd var af Félagsvísindastofnun haustið 2016. Um er að ræða eina vönduðustu könnun á viðhorfum almennings sem gerð er í heiminum, en sérlega er gætt að aðferðafræðilegri og kenningarlegri samanburðarhæfni. Árið 2016 var sérstök áhersla lögð á loftslags- og orkumál og að loknum fyrirlestri Árna verða þrjú erindi þar sem niðurstöður eru kynntar, bæði fyrir Ísland en einnig hvernig við stöndum í evrópskum samanburði. Að auki verður sjónum beint að því hvort það sé munur á milli hópa varðandi viðhorf til umhverfismála á Íslandi.

Helga Ögmundardóttir, lektor í mannfræði, fjallar um loftslagsmálin, Ingunn Gunnarsdóttir, doktorsnemi í umhverfis- og auðlindafræði, rýnir viðhorf Íslendinga til orkumála í evrópsku samhengi og veltir fyrir sér hvort við, Íslendingar, séum jafnfrábær og allir halda varðandi orkumál. Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði, fjallar um hvernig almenningur lítur á sína eigin ábyrgð og ábyrgð stjórnvalda þegar kemur að aðgerðum í umhverfismálum.

Á eftir stýrir Þorvarður Árnason, umhverfisheimspekingur og náttúrufræðingur, pallborðsumræðum.

Aðgangur er ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir. Boðið verður upp á léttar veitingar að málþingi loknu. 

Málþingið er hluti af röð málþinga um vísindi og samfélagslegar áskoranir sem Vísindafélag Íslendinga stendur fyrir í tilefni af aldarafmæli félagsins. Hlutdeild vísindanna í íslenskri menningu frá fullveldi er m.a. skoðuð á málþingunum en félagið var stofnað sama dag og Ísland varð fullvalda ríki með það í huga að öflug vísindastarfsemi væri þjóðinni nauðsynleg til að dafna. Ekki síður er þó hugmyndin að stuðla að almennri umræðu um samhengi vísindanna við samfélagslegar áskoranir með framtíðina í huga.