Dagsetning
3. nóvember
kl. 13:30-16:00
Aðgangseyrir
Nei
Upplýsingar um viðburð eru á ábyrgð skipuleggjanda

Vísindi og samfélag: Máltækni

Háskólinn í Reykjavík, Höfuðborgarsvæðið

Að nota íslensku í tölvum og tækjum.

Það hvernig tungumál og tölvutækni vinna saman verður æ stærri og mikilvægari þáttur í samfélaginu og sumir hafa jafnvel tekið svo djúpt í árinni að segja framtíð íslenskrar tungu hvíla á því hvernig til muni takast að búa til íslenska máltækni.
Vísindafélag Íslands stendur fyrir málþingi í samstarfi við Háskólann í Reykjavík um máltækni laugardaginn 3. nóvember milli 13:30 og 16. Málþingið verður í stofu M105 í HR.

Þar mun Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, fara yfir helstu áfanga í íslenskri máltækni síðastliðin tuttugu ár og reyna að leggja mat á hvernig til hefur tekist.

Stefanía Halldórsdóttir formaður stjórnar sjálfseignarstofnunarinnar Almannaróms kynnir stofnunina, segir frá samningi hennar við Mennta og menningarmálaráðuneytið um rekstur miðstöðvar máltækniáætlunar fyrir íslensku og verkáætluninni Máltækni fyrir íslensku 2018-2022.

Jón Guðnason, dósent við tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík.fjallar um talgreiningu, helstu fræðigreinar sem standa þar að baki með áherslu á aðkomu vélræns náms og tauganeta. Einnig verður talgreiningu á ræðum Alþingismanna lýst og vefgátt fyrir opinn talgreini sýnd.

Vilhjálmur Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Miðeindar ehf.fjallar um verkefni sem lúta að því að kenna tölvum að "skilja" texta, þannig að þær geti til dæmis unnið upp úr honum upplýsingar og staðreyndir, eða þýtt hann yfir á önnur tungumál og sýnir dæmi um málgreiningu íslensks texta og fleiri verkefni sem unnið er að á vegum Miðeindar.

Á eftir verða pallborðsumræður.

Fundarstjóri verður Hrafn Loftsson, dósent við Háskólann í Reykjavík.

Aðgangur er ókeypis og öllum heimill meðan húsrúm leyfir.

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Vísindafélagsins:
https://visindafelag.is/aldarafmaeli/malthing-2018-4/