Íslendingasögur – Sinfónísk sagnaskemmtun

Íslendingasögur – Sinfónísk sagnaskemmtun

Opnað hefur verið fyrir miðagátt fyrir hátíðarviðburð fullveldishátíðar í Hörpu 1. desember „Íslendingasögur – Sinfónísk sagnaskemmtun“.

Í tilefni af 100 ára afmæli fullveldisins býður ríkisstjórn Íslands þjóðinni til veislu. Hátíðarviðburður fullveldisdagsins er nýstárleg sýning í tali og tónum, byggð á sögum Íslendinga fyrr og nú, ofin í myndrænan ljósagjörning.  Þar munu Sinfóníuhljómsveit Íslands, leikarar, söngvarar og einleikarar spinna sinfónískan sagnavef ásamt kórunum Schola cantorum og kór Menntaskólans við Hamrahlíð.

Í sýningunni er horft fram á veginn, til næstu 100 ára með sögu síðustu aldar í farteskinu. Í þessum sinfóníska vef verða fólgnar fjölbreyttar gersemar, t.d. verður frumflutt sigurlag samkeppni afmælisnefndar fullveldisafmælisins „Landið mitt“ eftir Jóhann G. Jóhannsson, auk frumflutnings á verki eftir Báru Gísladóttur sem samið var gagngert fyrir þetta tilefni. Þá verður flutt ný útgáfa verksins Ad Genua eftir Önnu Þorvaldsdóttur við texta Guðrúnar Evu Mínervudóttur og er um að ræða frumflutning á Íslandi. Meðal listamanna sem fram koma eru tónlistarhópurinn Adapter, Varna Nielsen trommudansari frá Grænlandi, leikararnir Kristín Þóra Haraldsdóttir, Nicholas Candy og Orri Huginn Ágústsson, sópransöngkonan Jóna G. Kolbrúnardóttir og rapparinn Ragna Kjartansdóttir. Búningahöfundur er Ingibjörg Jara Sigurðardóttir.

Aðgangur að viðburðinum er ókeypis. Nálgast má boðsmiða á vef Hörpu, harpa.is/fullveldi, eða í síma 528 5050.

Forsætisráðuneytið hefur sent frá sér fréttatilkynningu um dagskrá fullveldishátíðar 1. desember. „Ríkisstjórn Íslands efnir til fullveldishátíðar í tilefni þess að 100 ár eru liðin síðan Ísland öðlaðist fullveldi. Fjölbreyttir viðburðir ætlaðir almenningi verða í helstu menningarstofnunum þjóðarinnar auk þess sem boðið verður til veislu víða um landið. Hátíðarviðburður í Hörpu að kvöldi fullveldisdagsins verður opinn almenningi, gegnum sérstaka gátt í miðasölu Hörpu.” Hægt er að nálgast fréttatilkynninguna í heild sinni hér.

Heildardagskrá afmælisársins má finna á vef afmælisársins og hafa nú rúmlega 400 viðburðir verið skráðir á dagskrá afmælisársins frá upphafi árs, um land allt.

Á fullveldisdaginn 1. desember eru nú skráðir um 40 viðburðir um land allt. Dagskrána má nálgast hér.

Fréttir

287 þúsund gestir sóttu viðburði aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands

287 þúsund gestir sóttu viðburði aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands

Lesa meira
Lífsblómið – síðasta sýningarhelgi

Lífsblómið – síðasta sýningarhelgi

Lesa meira
Landið mitt - frumflutningur

Landið mitt - frumflutningur

Lesa meira