Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands 2018

 Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands - lokaskýrslaÚt er komin skýrsla afmælisnefndar aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands þar sem m.a. má finna upplýsingar um framkvæmd afmælisársins og yfirlit yfir öll verkefni sem skráð voru á dagskrá afmælisársins.

 Helstu niðurstöður:

  • 459 viðburðir voru skráðir á dagskrárvef afmælisársins. Þar af voru 268 styrktir af afmælisnefnd, að undangenginni auglýsingu og valferli, og 191 þátttökuviðburður.
  • 287 þúsund gestir sóttu viðburði sem skráðir voru á dagskrárvef afmælisársins og voru tæplega 15 þúsund einstaklingar virkir þátttakendur í viðburðunum.
  • Áætlanir afmælisnefndar, bæði verkefna- og fjárhagsáætlun, stóðust og skilar nefndin af sér innan fjárheimilda.

Hér er hægt að lesa skýrslu afmælisnefndar þar sem m.a. er að  finna yfirlit um þau verkefni sem afmælisnefnd var falið samkvæmt þingsályktun sem og yfirlit yfir öll verkefni sem voru skráð á dagskrárvef afmælisársins. 


 Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands – hátíð þjóðarinnar!

Ísland varð frjálst og fullvalda ríki með gildistöku sambandslaganna 1. desember 1918. Segja má að þetta hafi verið einn merkasti áfanginn í sjálfstæðisbaráttunni, sem hafði þá staðið í nær eina öld.

Alþingi Íslendinga hefur samþykkt þingsályktun um hvernig fagna beri aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands, þar sem lögð er áhersla á menningu og tungu sem og þátttöku landsmanna. Þann 18. júlí verður hátíðarfundur Alþingis haldinn á Þingvöllum, en þann dag var samningi um dansk-íslensk sambandslög lokið með undirritun, Alþingi samþykkti frumvarp til laganna 9. september og var fumvarpið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu 19. október. Lögin öðluðust gildi 1. desember sama ár. Öllum landsmönnum gefst kostur á að fylgjast með fundinum í beinni sjónvarpsútsendingu. Fullveldisdagurinn, 1. desember, verður haldinn hátíðlegur um land allt og verða honum gerð góð skil í ríkisútvarpi og sjónvarpi.

 

Dagskrá afmælisársins mótuð í samvinnu við fólkið í landinu

1. janúar 2018 hófst dagskrá afmælisársins með frumsýningu á mynd um fullveldi Íslands 1918-2018. Í myndinni er farið, í stuttu máli, yfir sjálfstæðisbaráttu Íslendinga með áherslu á þann mikilvæga áfanga sem náðist þegar Ísland varð fullvalda þjóð árið 1918. Myndin er aðgengileg hér á vefnum á þrem tungumálum, íslensku, dönsku og ensku. Tímamótunum verður fagnað allt árið með fjölda viðburða um allt land.

Í lok árs 2017 var leitað til landsmanna við mótun dagskrár afmælisársins. Lögð var áhersla á vönduð og fjölbreytt verkefni sem hafa skírskotun til tilefnisins, hvort sem litið er til fortíðar, nútíðar eða framtíðar. Verkefnin tengjast flestum sviðum samfélagsins, s.s. menntun, menningu, vísindum, heilbrigðis­málum, stjórnmálum, atvinnuþróun, samgöngum og daglegu lífi fólks. Valin voru um 100 verkefni á dagskrá afmælisársins og þau kynnt í byrjun desember 2017.

Dagskráin er síbreytileg frá degi til dags því að allt árið er hægt að skrá verkefni á dagskrána hér á vef afmælisársins. Nú eru rúmlega 300 viðburðir komnir á dagskrá afmælisársins og fjölgar þeim hratt.

Á fullveldisdaginn sjálfan verða fjölbreyttir viðburðir um land allt. Ríkisstjórn Íslands mun standa fyrir dagskrá í tilefni dagsins sem verður mótuð í samvinnu við ungt fólk og tekur hún mið af hugðarefnum þess og hugmyndum um framtíð fullveldisins. Sjálfstæðisbarátta 21. aldarinnar verður meginviðfangsefni þeirra listamanna, hönnuða, fræðimanna og vísindamanna sem leggja hátíðinni til fjölbreytilegt efni og uppákomur. Í Reykjavík bjóða helstu menningarstofnanir þjóðarinnar upp á list- og menningartengda viðburði, auk þess sem viðburðir verða í boði í öllum landshlutum. Horft verður fram á veginn, til næstu 100 ára með sögu síðustu aldar í farteskinu.

Fögnum saman 100 ára fullveldi

Dagskráin er afar fjölbreytt og er það von afmælisnefndar að hún höfði til sem flestra og að Íslendingar og gestir okkar fagni saman 100 ára afmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands. Nú er tækifæri til að staldra við, líta um öxl og rifja upp, sjá hvað hefur áunnist, sjá hvaða framfarir síðasta öld hefur fært okkur og líta til framtíðar. Fjölmörg verkefnanna á dagskrá afmælisársins líta fram á veginn og birta áhugaverða og skapandi framtíðarsýn nýrrar kynslóðar.

 

Viltu fá vikulegar fréttir af dagskrá afmælisársins?

Dagskrárvefur afmælisársins er uppfærður reglulega eftir því sem viðburðir bætast við. Til að missa ekki af áhugaverðum viðburðum er hægt að skrá sig á póstlista afmælisársins og fá sent vikulega fréttabréf með viðburðum sem verða næstu vikuna.

Fylgdu okkur á Facebook!

Dagskrá afmælisársins er  kynnt á samfélagsmiðlum. Þar birtast fréttir af undirbúningi viðburða og myndir og fréttir frá viðburðum. Hér tengist þú Facebook-síðu afmælisársins.

Söfnum minningum – #fullveldi1918

Stendur þú fyrir viðburði á dagskrá afmælisársins? 

Ertu þátttakandi í viðburði eða ertu að njóta viðburða á dagskrá afmælisársins?

Merktu myndirnar þínar með myllumerki afmælisársins #fullveldi1918 og þá eignumst við skemmtilegt safn minninga frá afmælisárinu.

 

 

 

 

 

 

Ávörp

Kveðja forseta Íslands

Guðna Th. Jóhannessonar

í tilefni af hundrað ára afmæli fullveldis Íslands

Lesa Kveðja forseta Íslands

Forsætis­ráðherra

Katrín Jakobsdóttir

Fullveldi okkar allra

 

Lesa Forsætis­ráðherra

Formaður afmælis­nefndar

Einar K. Guðfinnsson

Þjóðin mótar dagskrána

Lesa Formaður afmælis­nefndar