Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands 2018

Aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands – hátíð þjóðarinnar!

Ísland varð frjálst og fullvalda ríki með gildistöku sambandslaganna 1. desember 1918. Segja má að þetta hafi verið einn merkasti áfanginn í sjálfstæðisbaráttunni, sem hafði þá staðið í nær eina öld.

Alþingi Íslendinga hefur samþykkt þingsályktun um hvernig fagna beri aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands, þar sem lögð er áhersla á menningu og tungu sem og þátttöku landsmanna. Tveir hápunktar verða á afmælisárinu: Þann 18. júlí verður hátíðarfundur Alþingis haldinn á Þingvöllum, en þann dag var samningum um fullveldi Íslands lokið með undirritun sambandslaganna, sem tóku síðan gildi 1. desember sama ár. Öllum landsmönnum gefst kostur á að fylgjast með fundinum í beinni sjónvarpsútsendingu. Fullveldisdagurinn, 1. desember, verður haldinn hátíðlegur um land allt, í samstarfi við háskóla, sveitarfélög og fólkið í landinu. Einnig mun ríkisstjórn Íslands standa fyrir dagskrá í tilefni dagsins.

 Dagskrá afmælisársins mótuð af landsmönnum

Leitað er til landsmanna við mótun dagskrár afmælisársins. Lögð er áhersla á vönduð og fjölbreytt verkefni sem hafa skírskotun til tilefnisins, hvort sem litið er til fortíðar, nútíðar eða framtíðar. Verkefnin skulu tengjast sem flestum sviðum samfélagsins, s.s. menntun, menningu, vísindum, heilbrigðis­málum, stjórnmálum, atvinnuþróun, samgöngum og daglegu lífi fólks. Frekari upplýsingar um áherslur og mótun dagskrár afmælisársins er að finna undir flokknum „Ertu með verkefni?“.

 Framtíðin í okkar höndum

Nú er tækifæri til að staldra við, líta um öxl og rifja upp, sjá hvað hefur áunnist og hvaða framfarir síðasta öld hefur fært okkur, en framtíðin er óráðin með tækifærum, kostum og áskorunum. Fögnum saman aldarafmæli sjálfstæðis og fullveldis Íslands, metum samtímaviðburði í ljósi fullveldisins en lítum ekki einungis til baka heldur speglum fortíðina í samtímanum og horfum saman til framtíðar.

  

Ávörp

Kveðja forseta Íslands

Guðna Th. Jóhannessonar

í tilefni af hundrað ára afmæli fullveldis Íslands

Lesa Kveðja forseta Íslands

Forsætis­ráðherra

Katrín Jakobsdóttir

Fullveldi okkar allra

 

Lesa Forsætis­ráðherra

Formaður afmælis­nefndar

Einar K. Guðfinnsson

Þjóðin mótar dagskrána

Lesa Formaður afmælis­nefndar