Ávarp formanns afmælisnefndar

Þjóðin mótar dagskrána
Ísland öðlaðist sess sem frjálst og fullvalda ríki árið 1918. Og núna þegar liðin er öld frá þessum þýðingarmikla atburði í sögu okkar verður þess minnst með margvíslegum hætti svo sem ákveðið var með samþykkt Alþingis 13. október 2016.

Árið 1918 var sannkallað harðindaár á Íslandi. Frostavetur plagaði þjóðina og skæð pest lagði fjölda fólks að velli. Engu að síður var  bjartsýni í hjörtum landsmanna þegar fullveldið varð að veruleika 1. desember það ár.

Fyrstu ár 20. aldarinnar voru miklir umbótatímar. Fullveldið jók landsmönnum kraft og þor og varð í sjálfu sér aflvaki framfara sem færðu okkur frá örbirgð til allsnægta á undraskömmum tíma.
Nú þegar við fögnum aldarafmælinu er sjálfsagt að líta um öxl, minnug þeirra fleygu orða að hyggja að fortíðinni þegar frumlegt skal byggja. En líkt og vera ber á tímamótum eigum við líka að líta til framtíðar; nestuð reynslu fortíðarinnar og með það  að markmiði að læra af reynslunni.

Óhætt er að fullyrða að hápunktar afmælisársins 2018 verði tveir viðburðir. Annars vegar þingfundur sem haldinn verður á Þingvöllum 18. júlí og hátíðarhöld sem vonandi fara fram um land allt þann 1. desember.

Alþingi kaus undirbúningsnefnd til þess að minnast hinna merku tímamóta. Nefndin fékk það veganesti að láta taka saman rit um aðdraganda sambandslaganna, efni laganna og framkvæmd þeirra, svo og rit um inntak fullveldisréttar er Ísland öðlaðist að þjóðarétti árið 1918, stofna í samvinnu við Árnastofnun til sýningar á helstu handritum safnsins til að minna á grundvöll íslenskrar menningar og forsendur sjálfstæðis og fullveldis þjóðarinna, stuðla að heildarútgáfu Íslendingasagna á afmælisárinu svo að fornar bókmenntir Íslendinga séu jafnan öllum tiltækar, jafnt á bók sem stafrænu formi og  hvetja skóla til að beina sjónum að þeim merku tímamótum sem urðu í íslensku samfélagi með sambandslögunum árið 1918.

Nefndin markaði sér strax þá stefnu að reyna eftir föngum að virkja sem flesta til þátttöku í hátíðarhöldum ársins. Við munum leita til almennings, sveitarfélaga, stofnana, félagasamtaka og allra þeirra sem áhuga hafa á að koma að þessu mikla verki. Auglýst verður eftir áhugasömu fólki um allt land til þess að leggja sitt af mörkum svo sem best takist til, hátíðarhöldin verði viðvarandi allt árið og þátttakan verði sem almennust. Þar verður skyggnst um gáttir til framtíðar og fortíðar og sérstök áhersla lögð á að virkja ungt fólk í þessum tilgangi. Við erum sannfærð um að út úr þeirri deiglu verði til fjölbreytt og metnaðarfull dagskrá í tilefni af þessum merku tímamótum í sögu okkar.

Við hlökkum sannarlega til samstarfsins og vitum að árið 2018 verður sannkallað hátíðarár sem undirstrikar gildis fullveldisins, jafnt í fortíð, nútíð og ekki síst í framtíð.

Einar K. Guðfinnsson,
formaður undirbúningsnefndar.