Ávarp forsætisráðherra

Fullveldi okkar allra

Þjóðarhugtakið er okkur tamt þegar við fögnum ýmsum tímamótum í sögu okkar sem hér deilum kjörum á þessari norðlægu eyju. Þjóðarhugtakið var til á miðöldum en hefur breytt um innihald, þjóðir voru þá ekki pólitískar einingar eins og í samtímanum. Áður fyrr skilgreindu þau sem bjuggu hér á landi sig sem Vestlendinga, Dalamenn, Mýramenn, jafnvel frá tilteknum bæjum eða sem hluta af tilteknum ættum;  Sturlunga, Ásbirninga eða Oddaverja. Menn voru Íslendingar þegar þeir fóru til annarra landa, jafnvel kallaðir Norðmenn og virðast ekki hafa kippt sér upp það og norrænir menn þegar farið var enn lengra suður í álfur. Rétt eins og þeir sem hingað komu frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku eða Finnlandi voru einfaldlega kallaðir Austmenn.

Þjóðarhugtakið er 19. aldar hugtak í þeirri merkingu sem við notum það, fyrst og fremst pólitískt og byggir á því að skilgreina ákveðið samfélag út frá tilteknum gildum sem talin eru einkenna það en líka út frá tilteknum sameiginlegum réttindum. Þegar konungur afsalar sér einveldi fær annar aðili æðsta valdið, það er þjóðin. Þá þarf jafnframt að skilgreina hvað er þjóð en áður en það gerist er engin þörf fyrir þjóð heldur eingöngu þegna.

Hér á landi hefur hefðin verið sú að skilgreina íslenskt þjóðerni út frá hugtökum eins og land, þjóð og tunga; þ.e. að hér búi einsleitur hópur sem tali sama tungumál og eigi saman það einstaka land sem við deilum. Þessi gildi voru áberandi í sjálfstæðisbaráttunni en þá var þó ekki síður rætt um hversdaglegri hliðar sjálfstæðisins. 

Þegar Jón Sigurðsson ræddi sjálfstæði Íslands átti hann við að hér yrði sjálfstætt íslenskt menntakerfi, hér væri sjálfstæð verslun og sjálfstæð stjórnsýsla. Með öðrum orðum taldi Jón að það væri til hagsbóta fyrir Íslendinga að ákvarðanir væru teknar á landinu og nærri íbúunum sjálfum.

Í aðdraganda fullveldis náðust miklir áfangar á þessum sviðum. Fræðslulög voru samþykkt 1907 og tóku gildi 1908 en fyrir tíð þeirra báru heimilin ábyrgð á kennslu barna og ungmenna, undir eftirliti presta. Fræg er skýrsla Guðmundar Finnbogasonar um bágborið ástand almenningsfræðslu í byrjun 20. aldar en þar var lagður grunnur að fræðslulögunum og stofnun Kennaraskóla Íslands. Þá var Háskóli Íslands stofnaður 1911. Fyrsti íslenski ráðherra Íslands sem var staðsettur hér á landi tók við embætti 1904 og verslunarfrelsi komst á hér á landi 1855.

Að undangengnum sambandslagasamningum sumarið 1918 viðurkenndi Danmörk Ísland sem frjálst og fullvalda ríki þann 1. desember 1918. Við fullveldisstofnun tóku Íslendingar flest sín mál í eigin hendur og aldarfjórðungi síðar gengu þeir svo skrefinu lengra eins og þeir höfðu rétt til samkvæmt sambandslagasamningnum og í krafti fullveldis síns og stofnuðu lýðveldið Ísland, á Þingvöllum á afmæli Jóns Sigurðssonar sumarið 1944.

Nú hundrað árum frá fullveldisstofnun hefur margt breyst. Eru gildin þau hin sömu og höfð voru að leiðarljósi í sjálfstæðisbaráttunni? Eru rökin sem Jón Sigurðsson tefldi fram jafngild á tímum alþjóðavæðingar? Skilgreinum við sem hér búum okkur sem Íslendinga? Eða sem Reykvíkinga og Þistilfirðinga? Eða sem verkafólk, sjómenn og bændur? Eða Nexus-nörda, útivistarfrík eða latte-lepjandi lopatrefla?

Á tímum fjölbreyttara en um leið brotakenndara samfélags er full ástæða til að velta því fyrir sér á hvaða gildum skal byggja og hvaða rök við leggjum á borðið þegar við viljum varðveita og efla fullveldið. Tímamót á borð við hundrað ára afmæli fullveldisins gefa okkur gott tækifæri til þess.

Landið eigum við og þurfum að hlúa að og vernda. Þar skiptir ósnortin náttúra öllu máli en á þessum hundrað árum höfum við gengið verulega á auðlindir landsins við margháttaða atvinnuuppbyggingu. Á undanförnum árum hefur stuðningur aukist mikið við náttúruvernd enda æ fleiri sem átta sig á þeim verðmætum sem við eigum í víðernum Íslands. Þar þurfum við að setja niður langtímasýn um auðlindir landsins sem við eigum sameiginlega og líka um ábyrgð okkar sem borgara í alþjóðasamfélagi til að leggja okkar af mörkum gegn hnattrænni hlýnun.

Tunguna eigum við enn þó íslensk tunga eigi undir högg að sækja á ýmsum sviðum. Þá baráttu heyr enginn nema við sem hér búum og eigum íslensku ýmist að móðurmáli eða höfum numið hana sem annað mál. Það er fagnaðarefni að nú liggur fyrir fjármögnuð aðgerðaáætlun um máltækni sem á að gera íslenska tungu gjaldgenga í stafrænum heimi. Eitt skref af mörgum sem þarf að stíga í varnarbaráttu tungunnar.

Og hvað svo með þjóðina? Jú, þjóðin er hér en hún er gjörbreytt frá því fyrir hundrað árum. Fjölbreyttari, frá ólíkum heimshornum, með ólíkan bakgrunn, af ólíkum kynþáttum og með ólíka menningu. Hvernig getum við öll tekið betur utan um hvert annað og fagnað því að eiga hér fjölbreyttari þjóð en nokkru sinni fyrr? Öllu máli skiptir að byggja upp gott samfélag með aukna velsæld að leiðarljósi. Í slíku samfélagi skiptir fleira máli en íslenskur menningararfur. Samfélagið allt verður auðugra á því að hér býr fólk með allt annars konar bakgrunn og gildi sem geta bætt íslenska menningu.

Við eigum að nýta þessi tímamót, 100 ára afmæli fullveldis okkar, til að endurmeta og treysta gildi okkar allra. Byggja á þeim góða grunni sem við eigum og hugsjóninni um lýðræðislegt og frjálst samfélag þar sem mannréttindi eru tryggð, öllum eru tryggð jöfn tækifæri og að við tryggjum velsæld allra sem hér búa.

Lýðræði, frelsi, jöfnuður, velferð og réttlæti eru gildi sem sameina fullvalda þjóð á Íslandi sem gætir að landinu og tungunni og fagnar líka fjölbreytninni og margbreytileikanum.

Katrín Jakobsdóttir