Ávarp forsætisráðherra

Fullveldi Íslands

Þann 1. desember  2018 verður ein öld liðin frá því að Ísland varð frjálst og fullvalda ríki, sjálfstætt ríki í samfélagi þjóðanna. Fullveldið var stærsta formlega skrefið í átt til sjálfstæðis landsins þótt þjóðhöfðingi Íslendinga byggi áfram úti í Danmörku. Sambandinu við Dani var endanlega slitið 1944 og sjálfstætt lýðveldi með innlendum þjóðhöfðingja tók við.

Þótt raunverulegum afskiptum Dana af málefnum Íslands hafi í raun lokið 1904 með heimastjórn, íslenskum ráðherra, íslensku framkvæmdarvaldi og þingræði í nútímaskilningi, verður það ekki fyrr en 1918 sem Ísland öðlast sess meðal þjóðanna sem frjálst og fullvalda ríki. Fullveldi Íslands var staðfest með sambandslögunum sem voru í formi milliríkjasamnings milli Íslands og Danmerkur. Íslendingar voru þaðan í frá íslenskir ríkisborgarar, ekki danskir. Samningurinn gilti einnig sem lög í hvoru landi og íbúar beggja landa héldu öllum réttindum sínum, óháð því í hvoru landinu þeir bjuggu. Í fyrstu grein laganna var mælt fyrir um að Danmörk og Ísland væru frjáls, jafnstæð og fullvalda ríki í sambandi um einn og sama konung, Kristján tíunda, sem reyndist síðasti konungur Íslands.

Sjálfstætt ríki í samfélagi þjóðanna

Fullveldið hafði í för með sér að Ísland varð sjálfstæður þjóðréttaraðili í samskiptum við önnur ríki. Um leið fékkst viðurkenning Dana á fullveldi Íslands og grundvallarbreyting varð á innra skipulagi íslenska ríkisins. Í fullveldinu fólst að íslenska ríkið hefði óskoraðan rétt til að ráða sínum innri málefnum, setja réttarreglur og framfylgja þeim á yfirráðasvæði sínu og það þyrfti ekki að sækja  slíkt vald til neinnar æðri stofnunar. Um leið varð íslenska ríkið aðili að þjóðarétti og gat gengist undir alþjóðlegar skuldbindingar á eigin forsendum og eigin vilja.

Sem dæmi um þessa yfirfærslu valds má nefna að fullt forræði og ákvörðunarvald í utanríkismálum færðist  yfir til íslenska ríkisins. Í þeirri stöðu kaus íslenska ríkið að gera samkomulag um að Danmörk færi áfram með utanríkismál Íslands í umboði íslenskra stjórnvalda.  Samhliða því var gæsla landhelginnar fyrst um sinn áfram í höndum Dana. Í öryggis- og alþjóðamálum tóku Íslendingar þá ákvörðun að lýsa yfir ævarandi hlutleysi og vopnleysi en leitast eftir samvinnu við hin Norðurlöndin þar sem það átti við.  Sömuleiðis fékk íslenska ríkið fullt ákvörðunarvald um skipan dómsvalds í landinu en Hæstiréttur Danmerkur hafði fram að því verið æðsti dómstóll landsins. Var Hæstiréttur Íslands stofnaður í framhaldinu og tók til starfa 1920. Sama ár var fyrsta sendiráð Íslands opnað í Kaupmannahöfn.

Skerpt á stjórnskipun landsins

Samhliða fullveldinu reyndist nauðsynlegt að skerpa á stjórnskipun landsins. Það gerðist þegar  Íslendingar fengu aðra stjórnarskrá sína árið 1920. Hét hún „stjórnarskrá konungsríkisins Íslands“.  Í fyrstu grein sambandslaganna var því lýst að Ísland væri frjálst og fullvalda ríki. Fullveldið er ekki orðað sem slíkt í stjórnarskránni en það birtist þó í annari grein laganna sem gefur til kynna að handhafar þriggja meginþátta ríkisvaldsins séu þar æðstir hver á sínu sviði. Sama ákvæði hefur einnig almennt verið talið setja skorður við því að unnt sé að framselja ríkisvald til alþjóðastofnana og þannig varðveitt og viðhaldið fullveldi landsins.

Á sínum tíma þegar samningamenn Íslands tókust á um lagatexta sambandslaganna tóku þeir orðið fullveldi fram yfir sjálfstæði og samningurinn vakti nokkra athygli erlendis. Heimsstyrjöldin fyrri hafði þá staðið yfir í fjögur ár með gríðarlegu mannfalli og samningamenn herveldanna áttu eftir að búa svo um hnútana að aðeins reyndist um að ræða stund milli stríða. Heimskreppan og aðdragandi og upphaf seinni heimsstyrjaldar átti eftir að móta það alþjóðaumhverfi sem beið hins unga fullvalda ríkis.

Efnahagslegt sjálfstæði

Þegar Ísland fékk fullveldi  var langþráðu marki náð í baráttunni fyrir sjálfstæði.  Íslendingar voru ríflega 90 þúsund talsins á þessum tíma og ljóst að þeirra biðu mörg verkefni  enda efnahagur þjóðarinnar rýr og fullveldisárið sýndi náttúra landsins allar sínar verstu hliðar. Eftir góðæri heimastjórnartímabilsins tóku við erfiðleikar í efnahagslífinu vegna versnandi viðskiptakjara, ófullkominnar efnahagsstjórnar, einhæfs atvinnulífs og ófullburða og óstöðugs bankakerfis. Peningastefnan var ómótuð og vissara þótti að tengja íslensku krónuna þeirri dönsku. En mestu skipti að Íslendingar réðu nú sjálfir sínum markaðsmálum og viðskiptasamningum og áttu því hægar um vik að bregðast við breyttum aðstæðum. Stjórnmálabaráttan hætti að taka mið af sjálfstæðibaráttunni en snerist fremur um uppbyggingu samfélagsins og innviða þess.

Þær breytingar, sem átt hafa sér stað á Íslandi síðustu öld eru með ólíkindum, en aflvaki þeirra var sá andi bjartsýni og dugs, sem þurfti til þess að ætla að lítil þjóð á eyju norður í Atlantshafi gæti staðið á eigin fótum og öðlast fullveldi.  Enginn efast um að sú ákvörðun hefur verið heilladrjúg.